laugardagur, september 27, 2008

Húrra fyrir kreppunni

Á þessum síðustu og verstu tókst að vekja upp gömlu góðu vini okkar. Hjúin, Þorri og Góa, rötuðu í Fréttablaðið og á Rás 2 í vikunni. Í Fréttablaðinu á þriðjudaginn er umfjöllun um kaupleysið okkar og líka í þættinum hans Felix á Rás 2 í morgun.
Þetta hefur eins og áður vakið mikla athygli, en það eru svo sannarlega aðrir tímar í dag en þegar við stengdum þess heit að draga úr neyslu á þorranum 2007. Þá tókum við, eins og svo margir aðrir, þátt í gengdarlausu neyslufylleríi í góðærinu. Mörgum félögum okkar þótti þetta heldur furðulegt uppátæki. Sumir veltu því meira að segja fyrir sér hvort við ætluðum að setja hagkerfið á hvolf með því að hvetja fólk til að hætta að halda hjólum kapitalismans gangandi.
Viðbrögðin eru önnur í dag og mun fleiri sem hugsa sig um áður en rokið er út að eyða peningum. Þurfti sem sagt krepputal og allt sem því fylgir til að stoppa þessa yfirgengilegu neyslu?
En eru þetta í raun verri tímar en áður? Það þýðir alla vega ekkert annað en að gera gott úr þessu og kíkja í geymsluna, byrja aftur á því að breyta, bæta, endurnýta og gefa!
Munum líka að gefa tíma, gæðastundir með þeim sem okkur þykir vænt um eru ómetanlegar.
Rúna Björg

laugardagur, janúar 26, 2008

Þorrinn

Jæja þá er stundin runnin upp, bóndadagur var í gær og þorrinn byrjaður.
Einhverra hluta vegna er ég ekki eins uppveðruð yfir þessu átaki okkar að kaupa enga nýja hluti eins og í fyrra. Ástæðan er eflaust sú að ég hef dregið úr þessu neyslubrjálæði í heildina. Þó svo að ég hafi keypt nýja hluti eftir að átakinu lauk í fyrra þá er ég meðvitaðri um það sem ég kaupi og spyr mig gjarnan um nauðsyn hlutarins sem ég held á í versluninni. Það var auðvitað markmiðið með átakinu í fyrra.
Gangi ykkur vel í kaupbindindinu þið sem ætlið að þreyja þorrann og góuna með mér og fleirum.
Með bestu kveðju Helen Sím.

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Eigum við aftur.....

...að fara í verslunarbindindi þegar þorrinn gengur í garð og þar til góunni lýkur. Sem sagt eigum að þreyja þorrann og góuna aftur. Hverjir eru með?

Lýsing frá því í fyrra á tilganginum
Hér er á ferð hópur sem ætlar að strengja þess heit að fara í verslunarbann - frá því Þorrinn byrjar og þar til Góunni lýkur. (árið 2008 frá 25. janúar - 24. mars 2008, ath. að ég er ekki viss á dagsetningunum)

Tilgangurinn er að segja markaðsöflunum stríð á hendur, gerast umhverfisvænni, spara peninga og draga úr "hlutaveiki og græðgisvæðingu".

Reglurnar eru:
má kaupa mat, hreinlætisvörur, lyf og öryggisvörur.
Annað má kaupa NOTAÐ eða fá á skiptimörkuðum.

Með bestu kveðju
Helen Sím.

mánudagur, desember 17, 2007

Jólakrans úr hvítum plastpokum



Rakst á þetta hjá Tiu Bennet
Nánari leiðbeiningar er svo að finna hérna.

Hvenær ætlar ÞogG að fara að hittast ? Yfir föndri úr ókeypis efni eða jólatei á Selfossi ?

þriðjudagur, nóvember 20, 2007

Buy nothing day

Þann 24. nóvember er... ja hvað eigum við að segja KAUPLAUSI DAGURINN (Nei við erum ekki að fara að vinna frítt) eða eigum við frekar að kalla hann "VERSLUNARLAUSI DAGURINN". Hvað um það þetta er alþjóðlegur dagur þar sem við neytendur verslum ekkert.

Á síðunni http://adbusters.org/home/ má sjá mjög merkilega auglýsingu um þennan dag og neyslusamfélagið og það merkilega er að MTV neitar að birta þessa auglýsingu þrátt fyrir borgun.
Mæli með því að þið kíkið á síðuna og horfið á þessa auglýsingu sem og aðrar sem adbuster hefur framleitt en fær ekki birtar vegna hagsmunaárekstra viðskiptafélaga sjónvarpsstöðva. Það er sem sagt í fínu lagi að ljúga öllum andsk... í okkur en ekki í lagi að koma sannleikanum á framfæri - í svona samfélögum lifum við, þeir sem eiga mestan peninginn (fyrirtækin) geta haft áhrif á hvaða auglýsingar eru birtar í sjónvörpum.
Góðan kauplausan dag næstkomandi laugardag.

Kv. Helen Sím.

föstudagur, október 26, 2007

Scraphouse



Ég rakst á þetta verkefni í vikunni og varð alveg himinlifandi því að smíða hús úr afgöngum hefur verið draumur minn í nokkur ár.
Hins vegar þá get ég ímyndað mér að byggingareglugerðir í San Fransisco séu eitthvað frábrugnar þeim íslensku en hvað um það þetta er frábært framtak.

Mikið væri gaman að prófa þetta á Íslandi... !!!!!

Næsta verkefni Þorra og Góu ?
Sumarverkefni ? Sumarbústaður undir Eyjafjöllum byggður úr afgöngum ?

Nánari upplýsingar um verkefnið hérna

sunnudagur, október 21, 2007